Sagan okkar!

Við hjónin áttum okkar fyrsta stefnumót í Róm árið 2012, þegar Guðjón var þar í skiptinámi, að ljúka við meistaragráðu frá Copenhagen Business School. Eftir að hafa ráfað um borgina langt fram á nótt, þar sem við sýndum hvort öðru uppáhaldsstaðina okkar, vorum við bæði kolfallin fyrir hvort öðru og það var ekki aftur snúið. Þrátt fyrir að hafa verið uppáhaldsborg okkar beggja áður, á Róm nú sérstakan stað í hjörtum okkar, sem og Ítalía.
Jóhanna hefur dvalið lungan úr lífinu á Ítalíu. Hún er með MA frá Háskólanum La Sapienza í Róm í bókmennta- og tungumálafræði auk þess að vera að ljúka MA námi í íslenskri málfræði frá HÍ. Jóhanna kenndi ítölsku í HÍ um árabil, en hefur síðan kennt ítölsku við Menntaskólann við Hamrahlíð  sl. 20 ár, auk þess að kenna í fjarnámi í FÁ.
Jóhanna er öllum hnútum kunnug í Marche, enda hefur hún skipulagt Námsfrí á Ítalíu í samstarfi við Campus Magnolie í Castelraimondo í 17 ár. Yfir 1000 Íslendingar hafa notið leiðsagnar hennar í náminu þar og tengdum ferðum um Ítalíu.
Saman höfum við hjónin skipulagt fjölda ólíkra ferða um Ítalíu fyrir einstaklinga og hópa, kóra- og kennaraferðir ásamt því að skipuleggja fjölda veislna og brúðkaupa þar, m.a. okkar eigið.