Árið 2024
Alveg magnað ár fyrir InItalia!
Í janúar hófumst við handa við að hrinda öllu því sem við höfðum verið að ræða mánuðina (eiginlega árin) á undan í framkvæmd. Markmið okkar voru að koma formlegra skipulagi á þá þjónustu sem við höfðum verið að veita hundruðum Ítalíufara undanfarna áratugi. Einnig langaði okkur að hefja innflutning á þeim sælkeravörum sem við höfðum uppgötvað og orðið heilluð af á ferðalögum okkar um Ítalíu. Við settum upp fundi með fyrirhuguðum samstarfsaðilum á Ítalíu og birgjum, pöntuðum flug til Rómar ásamt bílaleigu bíl og í lok febrúar keyrðum við þvert yfir landið til Marche og Umbria þar sem við eyddum nokkrum dögum. Það er alltaf smá stressandi að reyna fyrir sér á nýjum vettvangi, því þó að við hefðum skipulagt fjölda ferða og uppákoma um Ítalíu þá höfðum við aldrei skipulagt heildræna ferð frá A-Ö fyrir óþekktan hóp fólks, sem við vissum ekkert um hvort áhuga myndu hafa á viðkomandi ferð eður ei. Fyrir utan að hafa tekið með heim ómælt magn af troðfullum ferðatöskum með ítölskum matvælum, höfðum við heldur aldrei flutt inn matvæli í brettavís, frá ólíkum héruðum landsins. Með þetta í huga, settum við okkur lítil markmið sem við töldum að væru raunhæf. Við ákváðum að fara eina skipulagða ferð með lítinn hóp 2024, og flytja inn takmarkað magn af fáum vörum. Varðandi fyrstu ferðina sem við skipulögðum, þá gætum við ekki hafa verið heppnari með þann fjölbreytta, skemmtilega og ferðavana hóp sem endanlega skráði sig í hana. Þetta var sjö daga dekurferð til Marche, Umbria og Rómar sem tókst algjörlega fram úr vonum. Við gistum 5 nætur á hinu óviðjafnanlega spa hóteli Borgo Lanciano í Marche og síðan síðustu nóttina á Sheraton, rétt fyrir utan Róm. Við hjónin erum ennþá að tala um hvað við skemmtum okkur vel. Í september hófumst við svo handa við að teikna upp þau markmið sem við höfðum fyrir InItalia árið 2025 sem og að panta og skipuleggja innflutning á fyrstu sælkeravörum InItalia. Við bjuggum til nýja vefsíðu fyrir InItalia sem og nýja vefverslun fyrir sælkeravörurnar sem fengið hefur nafnið Gourmeria. Október, nóvember og desember voru líka mjög fjörugir mánuður hjá InItalia. Við fórum í gegnum áhugvert lærdómsferli við að flytja inn matvörur til landsins. Við seldum töluverðan fjölda jólapakka til einstaklinga og fyrirtækja og tókum þátt í Jóla og Matarmarkaðinum í Hörpu. Það er skemmst frá því að segja að nær allar þær vörur sem fluttar voru inn höfðu selst upp nokkrum dögum eftir að hafa verið leystar úr tolli. Í allt hefur 2024 verið mjög annasamt gott og ekki síður lærdómsríkt ár. Stærstu fréttirnar í augnablikinu samt eru þó þær að Ferðamálastofa hefur samþykkt að veita InItalia fullt ferðaskrifstofuleyfi í byrjun næsta árs og við erum mjög spennt yfir öllum þeim tækifærum sem það getur falið í sér. Kærar þakkir fyrir samveruna, stuðninginn og þann áhuga sem þið hafið sýnt InItalia á árinu 2024 og við hlökkum til að sjá ykkur og vonandi ferðast með ykkur sem fyrst!