




Dagur 1.
Ferðadagur
Brottför í beinu flugi með Icelandair kl. 08:20 með áætlaða lendingu í Feneyjum kl. 15:00
Frá Marco Polo flugvellinum höldum við beint á fjögurra stjörnu hótelið ,sem staðsett er í miðborginni við ströndina í Pesaro, sem er syðsta borgin í Marche, sem og önnur stærsta borg héraðsins.
Pesaro er falleg strandborg á austurströnd Ítalíu við Adríahaf. Hún er þekkt fyrir fagrar sandstrendur, líflega menningu og ríka tónlistarsögu.
þar fæddist tónskáldið Gioachino Rossini, og árlega er haldin Rossini Opera Festival honum til heiðurs.
Borgin hefur að geyma sögulega miðborg með gömlum torgum, virki og dómkirkju, og hún er umkringd gróðursælum hæðum og vínekrum.
Skammt frá Pesaro er náttúruverndarsvæðið Monte San Bartolo, sem hefur að geyma fjölbreyttar hjólaleiðir, oft með óviðjafnanlegu útsýni yfir Adriahafið.
Í nágrenninu eru líka áhugaverðar borgir eins og Urbino, heimaborg listamannsins Raphael og eitt best varðveitta endurreisnarborgarstæði Ítalíu. Svæðið sameinar þannig strandalíf, sögulegar minjar, menningu og náttúru á heillandi hátt.
Pesaro er á menningarskrá UNESCO, sem og þjóðgarðurinn í kringum hann San Bartolo.
Kvöldverður á hótelinu (án drykkja) er innifalinn.
Dagur 2.
Stutt leiðsögn um Pesaro, frjáls tími
Eftir morgunmat munu fararstjórar bjóða upp á stutta leiðsögn um helstu kennileiti Pesaro borgar. Þar sem við munum dvelja í þessari skemmtilegu borg næstu daga, og ferðalangar munu oft hafa frjálsan tíma seinni part dags, sem hægt verður að nýta á fjölbreytilegan hátt, er ekki úr vegi að kynna sér þessa fallegu borg aðeins betur.
Stefnt er að því að leggja af stað um kl. 10:00 og að leiðsögninni ljúki ekki seinna en 11:30 - 12:00
Það sem eftir lifir dags er frjáls tími.





Dagur 3.
Hjólað eftir San Bartolo útsýnisleiðinni



Við munum vakna snemma í morgunverð og klukkan 8:00 hittumst við fyrir utan hótelið okkar og fáum hjólin okkar afhent. Í framhaldi leggjum við af stað í eina af fallegri hjólaleiðum á Ítalíu, Strada Panoramica del San Bartolo, sem gæti útlagst sem útsýnisleið heilags Bartolo.
Leiðin liggur um Monte San Bartolo náttúruverndarsvæðið, milli Pesaro og Gabicce Mare, og fylgir klettabrúninni með víðáttumiklu útsýni yfir Adríahafið. Leiðin er alls um 24 km löng í hvora átt (alls ca. 45–50 km hringferð frá Pesaro og tilbaka), með brekkum og beygjum sem gera hana bæði krefjandi og ánægjulega fyrir reynda hjólara.
VIð munum taka aðeins styttri hring og hjóla tilbaka í gegnum þjóðgarðinn að hótelinu.
VIð munum stoppa á nokkrum stöðum á leiðinni og njóta þessarar dýrlegu náttúru, en hádegisverður verður á eigin vegum.
Leiðin er mjög vinsæl meðal hjólreiðamanna og bílaumferð er yfirleitt lítil, sérstaklega í miðri viku. Best er að hjóla snemma morguns eða síðdegis, þegar hitinn er minni og birtan yfir hafinu gullin. Hjólað verður á mismunandi undirlagi, mismunandi hjóla- og göngustígum en smá hluti leiðarinnar verður á þjóðvegi.
Þegar við komum til baka til hótelsins munum við afhenda hjólin og í framhaldi er frjáls tími.
Vegalengd sem hjóluð er: 34, km.
Erfiðleikastig: Miðlungs
Hækkun: 540 metrar
Lækkun 534 metrar
RCA trygging innifalin í hjólaferðum.
Tegund hjóla: MTB Front rafmagnshjól


Dagur 4.
Hjólað til Urbino
Við munum vakna snemma í morgunverð og klukkan 8:00 munum við hittast fyrir utan hótelið okkar, þar sem við tökum við hjólunum. Í framhaldi leggjum við af stað tiltekna leið sem mun taka okkur í áttina til hinnar sögufrægu borgar Urbino.
Urbino er ein fegursta og merkilegasta endurreisnarborg Ítalíu og ein af perlum Marche-héraðsins. Borgin stendur á tveimur hæðum, umlukin grænum fjöllum, um 39 km frá Pesaro. Urbino er á Heimsminjaskrá UNESCO fyrir einstaka byggingarlist og menningararf.
Urbino blómstraði á 15. öld undir stjórn hertogans Federico da Montefeltro, sem breytti henni í miðstöð lista, mennta og hugsunar. Hann safnaði listamönnum, fræðimönnum og arkitektum til borgarinnar. Borgin er ennfremur fæðingarstaður Raphael.
Urbino hefur haldið sínum fornlega sjarma, með sínar þröngu, bröttu götur, rauðleitar múrsteinsbyggingar og líflegan háskóla sem heldur borginni ungri og menningarlegri. Hér blandast list, saga og daglegt líf á einstakan hátt.
Leiðin liggur upp í fjöllin frá Adríahafinu til hinna sögulegu hæðaborga Urbino. Hún fylgir sveitavegum í gegnum græna dali, vínekrur og olívulundi og býður upp á stórkostlegt útsýni yfir sveitir Marche.
Fyrri hluti leiðarinnar frá Pesaro er tiltölulega flatur, en eftir þorpin Ginestreto og Colbordolo tekur við stöðug hækkun (alls um 300 - 400 m hækkun). Lokaspölurinn upp að Urbino er krókóttur og brattur, en verðlaunin eru mikil þegar borgin birtist á hæðinni í fjarska.
Við komuna til Urbino munum við afhenda aðstoðarmönnum hjólin til flutnings tilbaka til Pesaro og í framhaldi verður farið í skoðunarferð um Urbino, áður en við setjumst niður að sameiginlegum hádegisverði með ljúffengum afurðum úr héraði.
Eftir hádegisverðin mun rúta flytja okkur til hótelsins okkar í Pesaro en ferðin tilbaka mun taka um 45 mínútur. Í framhaldi er frjáls tími.
Hádegisverður með drykkjum er innifalinn.
Vegalengd sem hjóluð er: 39 km.
Erfiðleikastig: Miðlungs
Hækkun: 362 metrar
Lækkun 3 metrar
RCA trygging innifalin í hjólaferðum.
Tegund hjóla: MTB Front rafmagnshjól










Dagur 5.
Hjólað til Senigallia
Við munum vakna snemma í morgunverð og klukkan 8:00 munum við hittast fyrir utan hótelið okkar, þar sem við tökum við hjólunum. Í framhaldi höldum við af stað og munum hjóla meðfram ströndinni, áleiðis til Senigallia.
Senigallia er heillandi strandbær á Adríahafsströndinni, um 40 km sunnan við Pesaro. Hún sameinar anda liðinna tíma, gullfallega sandströnd og líflegt menningarlíf.
Borgin er klassísk ítölsk strandaborg með sögulegum rótum og afslappaðri nútímastemningu. Hún er einnig fræg fyrir sína “flauelsmjúku strönd”, eða "Spiaggia di Velluto," á ítölsku, vegna fíngerðs, gullins sands sem teygir sig yfir 13 km.
Ströndin er löng, hrein og fullkomin fyrir bæði sund, göngur og hjólreiðar meðfram strandgötunni.
Á leiðinni munum gera stutt stopp í strandabænum Fano sem þrátt fyrir nútímalegt yfirbragð, á sér ríka sögu og gamlan fallegan miðbæ.
Við komuna til Senigallia munum við afhenda aðstoðarmönnum hjólin til flutnings tilbaka til Pesaro og í framhaldi verður farið í skoðunarferð um bæinn, áður en við setjumst að hádegisverði og gæðum okkur á einhverju af þeim ljúffenga mat sem þessi matarkista hefur upp á að bjóða.
Eftir hádegisverðin mun rúta flytja okkur tilbaka á hótelið okkar í Pesaro, en ferðin þangað mun taka um 45 mínútur.
Hádegisverður með drykkjum er innifalinn.
Vegalengd sem hjóluð er: 37 km.
Erfiðleikastig: Miðlungs
Hækkun: 32 metrar
Lækkun 20 metrar
RCA trygging innifalin í hjólaferðum.
Tegund hjóla: MTB Front rafmagnshjól
Dagur 6.
Haldið til Verona
Eftir morgunverð kveðjum við Pesaro og höldum til rómantísku borgarinnar Verona en áætlaður akstur þangað er um 2 klukkustundir. Við verðum komin á fjögurra stjörnu hótelið okkar í miðbænum um eða upp úr 13.00
Eftir að fólk hefur haft tíma til að koma sér fyrir, munu farastjórar bjóða upp á stutta gönguleiðsögn um miðbæ Verona sem endar á hefðbundnum verónskum veitingastað, rétt hjá Piazza delle Erbe, þar sem boðið verður upp á ekta verónskan aperitivo að hætti heimamanna, þar sem borðaðir eru ýmsir smáréttir, með drykkjunum. Í framhaldi verður frjáls tími.
VIð hvetjum fólk til að skoða það ríka framboð menningarviðburða sem Verona hefur upp á að bjóða.
Þar má nefna óperur í hinu forna hringleikahúsi Arena, en einnig er boðið upp á fjölda viðburða og tónleika í borginni allt árið um kring.
Fjöldi mjög góðra veitingastaða eru í göngufæri frá hótelinu.






Dagur 7.
Frjáls dagur í Verona
Eftir morgunverð hafa ferðalangar frjálsan tíma til að ráðstafa eins og þeim hentar, kannað borgina upp á eigin spýtur, farið á söfn, slakað á og/eða verslað.
Fyrir ævintýragjarna ferðalanga þá er Verona ennfremur einstaklega vel staðsett fyrir dagsferðir til fjölda áhugaverðra borga, bæja og staða sem margir eru vel innan við klukkutíma lestarferð frá, og þó svo að hótelið okkar sé í miðbænum , þá er það í göngufæri frá lestarstöð Verona
Áhugaverðir staðir til að heimsækja þennan frídag, fyrir utan Verona, gætu til dæmis verið: Feneyjar, (1 klst og 12 mínútur frá) Bologna (1 klst. frá), Gardavatnið (um 30 mínútur frá,) og Vicenza (um 25 mínutur frá) og svo mætti lengi telja.
Tækifærin eru fjöldamörg til að nýta þennan dag til hins ýtrasta á ódýran og einfaldan hátt og fararstjórar eru boðnir og búnir til að aðstoða ferðalanga varðandi spennandi staði í stuttri fjarlægð frá Verona, eða í Verona.


Dagur 8.
Ferðadagur
Eftir morgunverð, mun ferðalöngum gefast smá tími til að rölta um en klukkan 11:00 þurfa að allir að vera búnir að tékka út og gera upp við hótelið, því þá munum við kveðja Verona og halda til Marco Polo flugvallarins.
Flugvöllurinn er innan við 1 1/2 klukkustunda akstur frá
Brottför heim er áætluð kl. 16:10.

Innifalið í verði:
Verð ferðar er 429.000 þús á mann. m.v. 2 í herbergi. Fyrir þá sem vilja vera í sér herbergi bætast 65.000 þúsund krónur við. Innifalið: Beint flug með Icelandair til Feneyja ásamt 23 kg. tösku og 10 kg. handfarangri. Rútuferðir skv. ferðalýsingu. Morgunverður á hótelum alla daga. 5 nætur á 4 stjörnu hóteli í miðbæ Pesaro, 50 metra frá Adriahafsströndinni. 2 nætur á glæsilegu 4 stjörnu hóteli í miðborg Verona. Kvöldverður (án drykkja) við komuna til Pesaro Hjólaferð um San Bartolo útsýnisvegin. Hjólaferð til Urbino ásamt hádegisverði. Hjólaferð til Senegallia ásamt hádegisverði. Skoðunarferð um helstu kennileiti Verona ásamt aperitivo að hætti Verona búa, með drykkjum og léttu snarli. Íslensk fararstjórn. Takmarkaður fjöldi þáttakenda. Lágmarks fjöldi þátttakenda í ferð er 20 manns. Ekki innfalið: Aðangur að söfnum, gistináttaskattur sem greiddur er á hóteli, aðgangur að Spa svæði hótelsins þá daga sem ferðir eru í boði, strandabekkir í Numana og annað sem ekki er tekið fram að sé innifalið. Leiga á hjálmum og aukabúnaði Annað: Staðfestingargjald er 60.000 kr. og er óafturkræft nema að ferðinni verði aflýst. Lokagreiðsla þarf að berast fyrir 5 vikum fyrir brottför. Ferðaskrifstofan / fararstjórar áskilja sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef veður, umferð eða aðrar ófyrirsjánlegar aðstæður gefa tilefni til.




